Image

FÖTLUN FYRIR TÍMA FÖTLUNAR

Markmið verkefnisins er að finna upplýsingar um fatlað fólk í Íslandssögunni frá landnámi allt til þess tíma að lög um málefni fatlaðra voru fyrst sett á Alþingi. Til þess að nálgast þessar upplýsingar sem sannarlega liggja ekki á yfirborðinu er gripið til að tvinna saman aðferðafræði átta fræðigreina innan Háskóla Íslands sem teljast til þriggja sviða þ.e. menningar- hug- og félagsvísinda og endurspeglast litir viðkomandi fræðasviða í merki verkefnisins. Þetta eru sagnfræði, fornleifafræði, miðaldabókmenntir, mannfræði, þjóðfræði, safnafræði og upplýsingafræði auk fötlunarfræðinnar sem hýsir hið metnaðarfulla rannsóknarverkefni. Fötlun fyrir tíma fötlunar hlaut hæsta mögulega styrk úr Rannsóknasjóði árið 2017, svokallaðan öndvegisstyrk. 

 

Tækifæri fyrir ungt vísinda- og fræðafólk

Lögð er sérstök áhersla á að þjálfa ungt vísinda- og fræðafólk innan fræðagreinanna í þverfræðilegu rannsóknarstarfi þar sem undirstaðan er samtvinnun aðferðafræða og samvinna. Fyrirlestrar, þátttaka í innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum, bækur, bókakaflar og ritrýndar greinar munu draga dám af þverfræðilegum nálgunum. Samhliða verður rannsóknarferlinum fylgt eftir í myndum og máli á vefnum og samfélagsmiðlum þar sem almenningur getur fylgst með hugmyndafræðilegri þróun og uppgötvunum ásamt því að heyra sögur af fötluðu fólki frá öllum tímum með þeirra eigin rödd eins og hún endurspeglast úr heimildasafninu í formi hluta, líkamsleifa, lýsinga, sagna, bréfa til yfirvalda, umsagna svo dæmi séu tekin.

Þverfræðileg rannsókn átta fræðigreina

Það er ekki einungis efni rannsóknarinnar sem er nýmæli heldur er það einstakt hversu margar fræðagreinar hafa tekið höndum samanRannsóknin er unnin út frá sjónarhorni fötlunarfræða en undirstaða fötlunarfræða er gagnrýnin nálgun á öll málefni er tengjast fötluðu fólki í fortíð og samtíð og með því að samþætta heimildir og upplýsingar sem mismunandi fræðigreinar hafa aflað og munu afla innan rannsóknarverkefnisins verður til einstakur heimildagrunnur um fatlað fólk í fortíðinni hér á landi.

 

Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands

Verkefnið er hýst hjá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. 


Rannsóknasetur í fötlunarfræðum er þverfaglegur vettvangur rannsókna á sviði fötlunarfræða sem var formlega stofnað þann 3. mars 2006, en stofnunin er sú fyrsta á þessu fræðasviði hér á landi. Rannsóknasetrið starfar sem undirstofnun Félagsvísindastofnunar og nýtur góðs af þeirri miklu reynslu sem þar er til staðar. Forstöðumaður rannsóknasetursins er Rannveig Traustadóttir prófessor og aðstoðar-forstöðumaður er Hanna Björg Sigurjónsdóttir dósent í fötlunarfræðum.
Við rannsóknasetrið eru einnig Snæfríður Þóra Egilsson prófessor í fötlunarfræðum, Stefan C. Hardonk lektor í fötlunarfræðum og James Gordon Rice lektor í mannfræði.

Image
 

Erlendir samstarfsaðilar

Tom Shakespeare
Dr. Tom Shakespeare prófessor í fötlunarfræðum við Norwich Medical School, UK. 

David Turner
Dr. David Turner prófessor í sagnfræði og deildarforseti við Swansea University, UK. 

Josh Eyler
Dr. Josh Eyler dósent í sagnfræði og forstöðumaður CTE við Rice Centre of Teaching Excellence. 

Simo Vehmas
Dr. Simo Vehmas prófessor í fötlunarfræðum við Háskólann í Stokkhólmi.

Irena Metzler
Dr. Irena Metzler rannsóknarprófessor við the University of Swansea í Wales.

Elaine Gerbere 
Elaine Gerbere  Dósent í mannfræði, Montclair State University

Verkefnið Fötlun fyrir tíma fötlunar er hýst af Rannsóknarsetri í fötlunarfræði við Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands | Sæmundargötu 2 | 101 Reykjavík | Netfang: hbs@hi.is

Rannsóknarverkefni styrkt af Rannsóknasjóði nr. 173655-051